Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að launahækkanir á næstu misserum verði meiri en samræmist verðbólgumarkmiði bankans. Unnið er að gerð nýrra kjarasamninga um þessar mundir.

„Þetta er eitthvað sem við höfum miklar áhyggjur af og ástæða til,“ sagði Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, á fundi Seðlabankans í dag þar sem farið var yfir stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans. Stýrivöxtum var haldið óbreyttum í nóvember.

Í hagvaxtarspá Seðlabankans kemur fram að nægilega aðhaldssöm peningastefna, tiltölulega stöðugt gengi krónunnar og nokkur slaki í þjóðarbúskapnum stuðli þó að því að verðbólga hjaðni að markmiði er líða tekur á spátímann. Það gerist hins vegar hægt og gæti brugðið til beggja vona í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir um niðurstöðu komandi kjarasamninga.

Seðlabankinn segir að hækki almennur launakostnaður t.d. svipað og að meðaltali á árunum 1990-2012 yrði verðbólga töluvert meiri en gert er ráð fyrir í grunnspánni bæði vegna þess að fyrirtæki muni velta auknum kostnaði út í verðlag og sakir lækkunar á gengi krónunnar. Innlendur efnahagsbati yrði þá einnig hægari, bæði sakir minni vinnuaflseftirspurnar en í grunnspánni og vegna þess að vextir Seðlabankans þyrftu að hækka til þess að vega á móti auknum verðbólguþrýstingi. Atvinnuvegafjárfesting yrði einnig minni og hagvöxtur hægari.

Verði launahækkanir hins vegar nær því sem samrýmist verðbólgumarkmiðinu yrði verðbólga minni, krónan sterkari, fjárfesting fyrirtækja og vinnuaflseftirspurn meiri og innlendur efnahagsbati hraðari.