*

þriðjudagur, 11. ágúst 2020
Innlent 11. maí 2020 12:45

Seðlabankinn hefur skuldabréfakaup

Bankinn hefur gert tilboð í stutt bréf fyrir samtals 400 milljónir króna, en hámarkið á fjórðungnum er 20 milljarðar.

Júlíus Þór & Höskuldur
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Gígja Einarsdóttir

Seðlabanki Íslands hóf í dag fyrirhuguð kaup ríkisskuldabréfa á eftirmarkaði í því skyni að tryggja að vaxtalækkanir bankans skili sér á lengri enda vaxtarófsins.

Ekki hefur orðið af kaupum enn, samkvæmt heimildum blaðsins, en bankinn hefur gert kauptilboð og þannig hafið innreið sína á markaðinn. Hugsanlegt er að næsta skref verði útboð, sem þá yrði tilkynnt um með dagsfyrirvara.

Bréfin sem um ræðir eru með gjalddaga á næsta og þarnæsta ári, fyrir 200 milljónir króna í hvorum flokki. Kaup bankans geta numið allt að 20 milljörðum króna á yfirstandandi ársfjórðungi, en í heild getur upphæð aðgerðarinnar numið 150 milljörðum.

Markmið kaupanna er samkvæmt tilkynningu bankans í lok apríl að „tryggja miðlun peningastefnunnar út vaxtarófið til að slakara taumhald peningastefnunnar skili sér með eðlilegum hætti til heimila og fyrirtækja“.

Þrátt fyrir það hefur bankinn ekki gert tilboð í útistandandi skuldabréfaflokka með gjalddaga 2025, ’28 og ’31.

Stikkorð: Seðlabanki