Seðlabanki Íslands hefur fyrir hönd íslenskra stjórnvalda svarað bréfi sem slitastjórn Glitnis sendi forsætisráðherra, fjármálaráðherra og Seðlabankanum fyrir síðustu mánaðamót. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra greindi VB.is frá þessu í dag og Seðlabankinn hefur staðfest það.

VB.is hefur ekki enn fengið efni bréfsins upplýst en í bréfi slitastjórnar Glitnis til stjórnvalda kemur fram að kröfuhafar föllnu bankanna séu tilbúnir til viðræðna um hvað þurfi til að leyfa þeim að ljúka við nauðasamninga sína.

Í frétt Financial Times sem birtist á vef blaðsins í gærkvöldi sagði ónafngreindur heimildarmaður sem tengist kröfuhöfum föllnu bankanna að vaxandi óþreyju gæti hjá kröfuhöfunum í garð íslenskra stjórnvalda. Þá var fullyrt að kröfuhafar hefðu gert stjórnvöldum tilboð sem hafi ekki verið svarað. Íslensk stjórnvöld hefðu hins vegar ekki verið í sambandi við kröfuhafa frá því að ný ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins tók við völdum.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagðist ekki kannast við það að fyrir lægi tilboð af hálfu kröfuhafanna.