Seðlabanki Íslands býðst til að kaupa evrur í skiptum fyrir íslenskar krónur til fjárfestingar til langs tíma í íslensku atvinnulífi eða gegn greiðslu í ríkisverðbréfum í flokknum RIKS 33 0321.

Jafnframt kallar Seðlabanki Íslands eftir tilboðum frá aðilum sem vilja selja íslenskar krónur gegn greiðslu í reiðufé í erlendum gjaldeyri. Útboðin þrjú eru liður í losun hafta á fjármagnsviðskiptum, samanber áætlun Seðlabankans um losun gjaldeyrishafta frá 25. mars 2011 og einnig skilmála Seðlabanka Íslands um gjaldeyrisviðskipti samkvæmt fjárfestingarleið að losun gjaldeyrishafta frá 18. nóvember 2011 með síðari breytingum. Þetta kemur fram á vefsíðu Seðlabankans.

Seðlabankinn áskilur sér rétt til að takmarka heildar viðskiptamagn með hliðsjón af áhrifum útboðanna á lausafjárstöðu fjármálafyrirtækja. Endanleg útboðsfjárhæð ræðst af þátttöku. Samkvæmt útboðsáætlun Seðlabankans er stefnt að næsta útboði 20. júní næstkomandi.