Þrátt fyrir jákvæða þróun í íslensku efnahagslífi að undanförnu eru blikur á lofti og horfurnar óvissari en alla jafna. Óstöðugleiki í heimsbúskapnum, einkum ríkisskulda- og bankakreppan á evrusvæðinu, hefur haft lítil bein áhrif hérlendis, enn sem komið er, m.a. sakir gjaldeyrishaftanna og vegna þess að innlendir aðilar eru lítt háðir fjármögnun á erlendum mörkuðum um þessar mundir.

Þetta kemur fram í nýjasta riti Seðlabankans um fjármálastöðugleika sem birt var í morgun.

Þar segir að fari svo að kreppan á evrusvæðinu dragist á langinn kunni hún að hafa óbein áhrif á fjármálakerfið ef eftirspurn eftir útflutningsvörum Íslands minnkar og viðskiptakjör versna. Bati fjárfestingar kunni einnig að tefjast verði aðstæður til fjármögnunar nýfjárfestingar erfiðar.

„Fjármálafyrirtækin hafa starfað í vernduðu umhverfi frá því í nóvember árið 2008, bæði vegna gjaldeyrishafta og innstæðutryggingar,“ segir í skýrslunni.

„Nú hafa fyrstu skref að losun gjaldeyrishaftanna verið stigin. Bankarnir þola talsvert útflæði á innstæðum, en til lengri tíma litið þurfa bankarnir að afla lánsfjár á markaði og lengja í innlendri fjármögnun sinni til þess að vera búnir undir opnara umhverfi. Þrátt fyrir að áætlun um losun gjaldeyrishaftanna miði að því að draga úr hreyfingu á lausu fé og gengissveiflum krónunnar, er mikilvægt að fjármálafyrirtæki séu undir það búin.“

Þá kemur fram að samhliða losun haftanna verði þróaðar varúðarreglur sem sporna eiga við áhættu í erlendri starfsemi bankanna og þeim hluta efnahagsreikninga þeirra sem eru í erlendri mynt.

Fyrr í skýrslunni kemur þó fram að efnahagsbati sé hafinn eftir mikið samdráttarskeið. Nýjasta spá Seðlabankans gerir ráð fyrir 3,1% hagvexti á þessu ári, sem að sögn Seðlabankans er fyrst og fremst knúinn áfram af einkaneyslu og atvinnuvegafjárfestingu.

„Kaupmáttur er að aukast og vísbendingar eru um bata á vinnumarkaði. Eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja er hátt og hefur farið hækkandi vegna góðrar rekstrarafkomu,“ segir í skýrslu bankans..

„Þau eru því þokkalega í stakk búin til að mæta áföllum. Skuldsetningarhlutfall þeirra er innan hóflegra marka og lausafjárstaða er góð. Bolmagn til að þjónusta arðbæra fjárfestingu er til staðar.“

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)