Seðlabankinn í Mexíkó keypti nærri 100 tonn af gulli í febrúar og mars. Kaupin eru ein af þeim stærstu sem gerð hafa verið af seðlabanka á síðari tímum. Í frétt Financial Times segir að með þessu vilji bankinn draga úr vægi Bandaríkjadals í gjaldeyrisforða sínum. Virði gullsins er um 4,6 milljarðar dala.

Seðlabankar heimsins hafa á síðustu árum keypt meira af gulli en þeir hafa selt, sem er viðsnúningur frá áratugunum tveimur á undan. Talið er að áhugi bankanna eigi sinn þátt í hækkandi verði á gulli. Markaðsverð er nú um 1.535 dollarar fyrir únsu. Hæst fór verðið síðastliðinn mánudag þegar únsan kostaði 1.575 dollara.