Seðlabanki Íslands hefur á síðustu dögum keypt íslensk ríkisskuldabréf fyrir að minnsta kosti um 17 milljarða króna. Síðastliðinn fimmtudag keypti bankinn ríkisskuldabréf, mest í styttri flokkum, fyrir um 12 milljarða króna. Í dag keypti bankinn ríkisskuldabréf fyrir 5,6 milljarða. Viðskiptin fyrir helgi voru öll við sama aðila. Viðskiptablaðinu er ekki kunnugt um hvort viðskiptin sem gerð voru í dag hafi verið við sama aðila og haft var viðskipti við fyrir helgi.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins tengjast kaupin áætlun um losun gjaldeyrishafta. Ekki fást nánari upplýsingar frá Seðlabankanum um viðskiptin, að öðru leyti en að hann telur bréfin heppilega eign í tengslum við afnám gjaldeyrishaftanna.

Viðskiptin sem gerð voru siðastliðinn fimmtudag voru felld niður af Kauphöll Íslands á föstudag, samkvæmt tilkynningu frá Kauphöll. Viðskiptin, alls um 12 milljarða kaup á ríkisskuldabréfum, voru tilkynnt á röngu verði og voru tilkynnt að nýju á réttu verði.