Seðlabankinn keypti erlendan gjaldeyri á gjaldeyrismarkaði fyrir meira en 10 milljarða íslenskra króna í janúar og hefur haldið áfram í febrúar að kaupa gjaldeyri. Umsvif Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði hafa ekki verið meiri frá því í desember 2010 miðað við veltutölur gjaldeyrismarkaðarins.

Aðilar sem Viðskiptablaðið hefur rætt við á gjaldeyrismarkaði segja að með þessu sé Seðlabankinn í raun að kaupa burt frekari styrkingu krónunnar. Markaðsaðilar ræða því um að ákveðið gólf sé að myndast í gengi krónunnar.

Helstu ástæðurnar fyrir því að Seðlabankinn geti keypt gjaldeyri en ekki krónur á þessum árstíma lúta að því að lítið er um stóra gjalddaga erlendra lána íslenskra aðila um þessar mundir. Því hafa þessir aðilar ekki þurft að safna gjaldeyri á markaði. Landsbankinn hefur til að mynda ekki verið að safna gjaldeyri á árinu samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Þá má einnig telja til ýmsar aðrar ástæður eins og aukinn ferðamannastraum á þessum tíma ársins.

Þá hafa menn velt vöngum yfir því hvort innflæði gjaldeyris megi rekja til fjárfestingarleiðar Seðlabankans. Erfitt er að meta það því þau viðskipti koma ekki alltaf fram í tölum fyrir innlenda gjaldeyrismarkaðinn. Oft er búið að stilla upp kaupendum þess gjaldeyris sem fer í gegnum fjárfestingarleiðina þegar sala á gjaldeyrinum fer fram.