Seðlabanki Íslands hefur síðustu tvo daga keypt krónur fyrir 24 milljónir evra sem samsvarar um 3,6 milljörðum íslenskra króna samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Eftir töluverða veikingu krónunnar síðustu daga greip Seðlabankinn inn í gjaldeyrismarkaðinn í gær þegar hann keypti gjaldeyri fyrir 12 milljónir evra í fjórum umferðum. Inngripin urðu þó ekki til þess að styrkja gegni krónunnar sem veiktist um tæp 3% gagnvart evru í gær.

Seðlabankinn greip svo aftur inn í markaðinn í dag þar sem hann hefur keypt krónur fyrir 12 milljónir evra í alls fjórum umferðum. Klukkan 10:40 hafði krónan veikst um 1,4% en eftir inngrip styrktist hún um 0,85% og stendur miðgengi evru nú 150 krónum.

Þrátt fyrir að 3,6 milljarðar séu töluverð upphæð er hún þó einungis lítið brot af gjaldeyrisforða Seðlabankans sem stendur enn í um 800 milljörðum króna.

Samkvæmt aðilum á markaði sem Viðskiptablaðið ræddi við skýrist veiking síðustu daga af þeirri einföldu ástæðu að útflæði gjaldeyris hefur verið meira en innflæði þess. Á sama tíma og þeir aðilar sem þurfa að kaupa gjaldeyri hafa gert það í þó nokkru mæli hafa útflutningsfyrirtæki á sama tíma haldið að sér höndum við að skipta gjaldeyri í krónur.