Í fyrra námu hrein gjaldeyriskaup Seðlabankans níu milljónum evra, eða rúmlega einum milljarði króna. Þá voru framvirkir gjaldeyrissamningar frá árinu 2010 gerðir upp að hluta og styrkti það gjaldeyrisstöðu Seðlabankans um rúma 29 milljarða króna. Kemur þetta fram í frétt á vef Seðlabankans, en bankinn mun framvegis, í upphafi hvers árs, gera grein fyrir þróun á gjaldeyrismarkaði og breytingum á gjaldeyrisforða á nýliðnu ári.

Segir þar að eftir tímabil verulegrar gengislækkunar síðustu mánuði ársins 2012 ákvað Seðlabankinn snemma árs 2013 að gera hlé á reglulegum gjaldeyriskaupum og styrktist krónan talsvert í kjölfarið.

Hinn 15. maí 2013 mótaði peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands síðan stefnu um virkari inngrip bankans á gjaldeyrismarkaði, sem dró úr daglegu flökti og sveiflum í gengi íslensku krónunnar það sem eftir var ársins, að því er segir í fréttinni. Gengi krónunnar styrktist um nær 11% á árinu miðað við vísitölu meðalgengis.

Gjaldeyrisforði Seðlabankans jókst um 45 milljónir Bandaríkjadala á árinu 2013 og var 4,228 milljónir Bandaríkjadala í árslok. Gjaldeyrisviðskipti og uppgjör framvirkra viðskipta juku gjaldeyrisforðann um jafnvirði 22,7 ma.kr. á sama tímabili. Í lok árs nam gjaldeyrisforðinn í heild 29% af vergri landsframleiðslu. Það svarar til 11 mánaða innflutnings sem er lítils háttar lækkun frá fyrra ári. Bókfært virði erlendra eigna í gjaldeyrisforða lækkaði um 52 ma.kr. á árinu. Það skýrist að mestu leyti af styrkingu krónunnar en einnig af virðis-breytingum á gulli og verðbréfum í forða.