Seðlabankinn keypti krónur fyrir alls 12 milljónir evra í inngripum sínum á gjaldeyrismarkað í gær. Fyrir vikið fór miðgengi krónunnar gagnvart evru úr 174,17 í 171,84 krónur, sem er styrking upp á tæplega 1,34%.

Seðlabankinn greip síðast inn í á gjaldeyrismarkaði á gamlársdag, en þá keypti hann krónur fyrir sex milljónir evra. Fara verður aftur til marsmánaðar í fyrra til að finna inngrip af sömu stærðargráðu og í gær, en þá námu inngripin einmitt 12 milljónum líka.

Það sem af er degi hefur gengi krónunnar veikst eilítið gagnvart evrunni, eða um 0,26%, en þrátt fyrir það hefur krónan styrkst í dag ef miðað er við gengisvísitöluna. Hún hefur styrkst um 0,04% í dag.