Seðlabankinn greip tvisvar inn í gjaldeyrismarkaðinn í síðustu viku samkvæmt upplýsingum sem bankinn hefur birt. Í Morgunkorni Íslandsbanka kemur fram að fyrra inngripið var 13. ágúst og hið síðara 14. ágúst. Keypti Seðlabankinn krónur fyrir 3 milljónir evra í hvort sinn og námu inngripin 30% af heildarveltunni á millibankamarkaðinum með gjaldeyri þessa tvo daga.

Inngripin komu í kjölfar nokkuð snarprar lækkunar á gengi krónunnar, en evran fór úr 157,96 krónum í 159,7 krónur yfir þessa tvo daga sem samsvarar veikingu um 1,1%. Fór dollarinn úr 118,8 krónur í 120,56 krónur á sama tíma. Gagnvart vegnu meðaltali helstu viðskiptamynta lækkaði gengi krónu um 1,1%.

Inngripin virðast hafa haft áhrif. Að minnsta kosti stöðvaðist spírallinn sem myndaðist á gjaldeyrismarkaðinum þessa tvo daga og þó svo að evran hafi um stund farið nokkuð yfir 160 krónur á seinni hluta síðustu viku endaði hún vikuna undir 160 krónum og dollarinn undir 120 krónum. Hafði krónan þá lækkað um 1,2% gagnvart evrunni yfir vikuna og um 1,4% gagnvart dollaranum. Lækkunin gagnvart vegnu meðaltali helstu viðskiptamynnta var 1,2%.