Seðlabankinn vinnur að því með Samtökum fjármálafyrirtækja að kortleggja útflæði á erlendum gjaldeyri, s.s. endurgreiðslu fyrirtækja á erlendum lánum og væntanlegum nauðasamningum gömlu bankanna. Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri, segir þetta nákvæmari skoðun en áður og lið í áætlun um afnám gjaldeyrishafta.

Hann sat fyrir svörum í Seðlabankanum í morgun með Má Guðmundssyni seðlabankastjóra þar sem hann gerði grein fyrir vaxtaákvörðun peningastefnunefndar.

Arnór sagði mikilvægt að greina upplýsingarnar um útflæði á erlendum gjaldeyri betur enda hafi verið tilhneiging til að blanda mismunandi upplýsingum saman í skál.

„Annars vegar eru þetta aflandskrónur, hins vegar úr þrotabúum bankanna og endurgreiðsla lána,“ sagði Arnór og benti á að erfitt sé að teikna endurgreiðsluferilinn upp með nákvæmum hætti.

Þegar niðurstöður liggja fyrir mun Seðlabankinn koma fram með reglur um útflæðið, að sögn Arnórs.