Í fundargerð peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands fyrir síðustu vaxtaákvörðun kemur fram að gengishækkun krónunnar snemma á vormánuðum hafi líklega falið í sér tímabundið ofris og sú hækkun hafi að nokkru leyti gengið til baka síðustu mánuði.

Álykta nefndarmenn því að áhrif hækkunarinnar verði takmörkuð, en nefna einnig að gengi krónunnar skömmu fyrir fundinn hafi enn verið tæplega 8% hærra en á sama tíma árið áður og svipað og í lok síðasta árs. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um þá ákvað bankinn að halda stýrivöxtum óbreyttum þegar hún birti ákvörðun 23. ágúst síðastliðinn.

Í fundargerðinni er jafnframt nefnt að síðasta ákvörðun í júní þar á undan hefðu vextirnir verið lækkaðir meðal annars því raunvextir hefðu hækkað milli funda, sem falið hefði í sér meira aðhald en nefndin hafði stefnt að og talið nægilegt.

Ein ástæðan slaki í aðhaldi hins opinbera

Voru allir nefndarmenn nú sammála um að skýr merki um spennu í þjóðarbúskapnum kölluðu á áframhaldandi peningalegt aðhald.

Lækkunin sem ákveðin var á síðustu tveimur fundum þar á undan hefði verið vegna áðurnefndrar hækkunar raunvaxta en nú hefði hins vegar slaknað á því taumhaldi, vegna aukinnar verðbólgu og verðbólguvæntinga. Auk þess var nefnt að útlit væri fyrir slökun í aðhaldi opinberra fjármála í ár.

Nefndi bankinn einnig hvort æskilegt væri að beita tíðari inngripum á gjaldeyrismarkaði í því skyni að draga úr sveiflum í gengi krónunnar, en síðan fjármagnshöftin voru að mestu leyti losuð, hefur dregið töluvert úr þeim viðskiptum.

Gárurnar sýnilegar lengi á eftir skellinn

Segir í fundargerðinni að viðskiptin nú hafi einkum miðað að því að stöðva það sem þeir kalla spíralamyndun, en erfitt gæti verið að beita virkari inngripum þar sem tveir gagnstæðir kraftar að verki. Er þá átt við innlendan verðbólguþrýsting annars vegar og hins vegar hækkandi gengi krónunnar og lítillar alþjóðlegrar verðbólgu, en mat nefndarinnar var að torvelt væri að greina á milli flökts og undirliggjandi stefnu í genginu.

Markaðurinn er sagður enn vera að leita jafnvægis en eftir marga skelli á skömmum tíma yrðu gárurnar sýnilegar lengi á eftir er orðalagið sem notað var í fundargerðinni. Líklegt er talið að sveiflurnar myndu minnka frá því sem þær hafa verið með endurmati og leit markaðarins að nýju jafnvægi sem kæmi þegar lengra væri á veg komið.

Rannveig Sigurðardóttir ritaði fundargerðina, en eftirfarandi nefndarmenn sátu fundinn:

  • Már Guðmundsson, seðlabankastjóri og formaður nefndarinnar
  • Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri
  • Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur
  • Gylfi Zoëga, prófessor, utanaðkomandi nefndarmaður
  • Katrín Ólafsdóttir, lektor, utanaðkomandi nefndarmaður