Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir það ofmælt að ró og kyrrð ríki um Seðlabanka Íslands sem á þessu ári verður 50 ára. Í ræðu sinni á ársfundi bankans sagði hann bankann standa á krossgötum og sú stefna sem nú verður tekin geti haft áhrif á þróunina á komandi tíð.

Már segir fyrstu krossgöturnar felast í því að efnahagsástandið er að breytast. „Óstöðugleiki og samdráttur eru að víkja fyrir betra jafnvægi og efnahagsbata. Viðskiptahalla ofþensluskeiðsins hefur verið snúið í undirliggjandi viðskiptaafgang sem hefur stutt við gengi krónunnar. Gengið er nú rúmlega 7½% hærra en í upphafi síðasta árs. Á sama tíma hefur  Seðlabankinn keypt gjaldeyri á markaði fyrir 33 milljarða króna en það er liður í þeirri áætlun að byggja upp óskuldsettan gjaldeyrisforða. Verðbólgumarkmið Seðlabankans náðist undir lok síðasta árs en þar áttu hlut að máli hærra gengi, slakinn í þjóðarbúskapnum og að verðbólguvæntingar höfðu hnigið að verðbólgumarkmiði. Þessi þróun er auðvitað ekki óháð þróun aðhaldsstigs peningastefnunnar því að vannýtt framleiðslugeta getur farið saman við vítahring fallandi gengis og hækkandi verðbólguvæntinga ef tiltrú skortir,“ segir í tölu Más.

Næstu krossgötur felast að sögn Más í því að erlend lausafjárstaða þjóðarbúsins hefur stórbatnað samfara auknum gjaldeyrisforða. „Forðinn í lok febrúar nam 719 milljörðum króna sem samsvarar 46% af landsframleiðslu. Hann hefur aldrei verið meiri á þennan mælikvarða, jafnvel ekki í lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Aukinn forði, meiri stöðugleiki, framgangur áætlunar um afgang á ríkissjóði á komandi árum og uppkaup erlendra skulda ríkissjóðs á eftirmarkaði hafa síðan orðið til þess að raddir um greiðsluþrot ríkissjóðs hafa þagnað. Þetta ræður miklu um það að nú er talið óhætt að vinna að losun gjaldeyrishafta og að skilyrði fyrir erlenda lántöku ríkissjóðs hafa batnað verulega en hún gæti rutt öðrum innlendum aðilum brautina,“ sagði Már.

Fjármálakerfið nálgast einnig krossgötur að sögn hans. Hann segir þá vinnu framundan að móta stefnu um stærð fjármálakerfisins og uppbyggingu þess.

„Að síðustu er hagstjórn og efnahagsstefna á krossgötum vegna þeirra breytinga sem ég hef hér rakið. Í sem stystu máli má segja að verkefnin séu að færast frá því að ná stöðugleika og sæmilegu jafnvægi til hagvaxtar og ennfremur frá kreppuviðbrögðum til lengri tíma uppbyggingar.

Að því er peningastefnuna varðar birtist þetta meðal annars í því að peningastefnunefnd hefur breytt hneigð hennar úr lækkandi vöxtum í hlutlausa stöðu. Það þýðir ekki að vextir geti ekki lækkað frekar, heldur hitt að þar sem verðbólga virðist hafa náð lágmarki, efnahagsbati er hafinn og virkir stýrivextir komnir nær jafnvægisvöxtum en áður, er ekki eins augljóst í hvaða átt næstu vaxtabreytingar verða. Framhaldið ræðst því í meira mæli en áður af því sem nýjustu vísbendingar gefa til kynna um ástand og horfur efnahagsmála.

Peningastefnunefnd mun væntanlega á næsta fundi sínum meta hvort og hvernig niðurstaða Icesave-atkvæðagreiðslu og nýbirt áætlun um afnám gjaldeyrishafta munu hafa áhrif á peningastefnuna á næstunni. Áætlunin byggist á því að skipta verkefninu upp í tvo megináfanga. Í þeim fyrri verður unnið að því að lækka stöðu svokallaðra aflandskróna með því meðal annars að hleypa eigendum þeirra út í gegnum útboð eða inn í fjárfestingu í íslensku efnahagslífi. Það er fyrst eftir að viðunandi árangur hefur náðst í þessu efni sem höft verða losuð af fjármagnsútstreymi innlendra aðila. Ef aðstæður eru réttar gæti seinni áfanginn gengið tiltölulega hratt fyrir sig en ella í minni skrefum.

Erfitt er að segja til um hversu lengi fyrri áfanginn stendur enda veltur það á margvíslegum óvissuþáttum eins og viðunandi aðgangi ríkissjóðs og annarra aðila að erlendum lánamörkuðum. Það skiptir hins vegar máli varðandi peningastefnuna á næstunni að fyrri áfanginn er þannig hannaður að framan af að minnsta kosti reynir lítið á gengi og gjaldeyrisforða. Það er fyrst í seinni áfanga, sem vaxtamunur gagnvart útlöndum fer að skipta mun meira máli varðandi þróun gengis krónunnar, en nú er.

Peningastefnan hefur á undanförnum misserum verið hluti af stærri efnahagsáætlun stjórnvalda í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Lykilþættir þeirrar áætlunar hafa verið stöðugt gengi, sjálfbær ríkisfjármál og enduruppbygging fjármálakerfisins. Þrátt fyrir tafir í framkvæmd áætlunarinnar hefur á heildina litið orðið af henni verulegur árangur. Samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um núverandi efnahagsáætlun lýkur nú í ágúst. Áratugalangri samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er auðvitað ekki þar með lokið. Ég vil af hálfu Seðlabankans nota þetta tækifæri til að þakka Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og starfsmönnum hans fyrir samstarfið á undanförnum misserum. Lok áætlunar með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og framkvæmd áætlunar um afnám gjaldeyrishafta setja á dagskrá mótun peningastefnu komandi ára og í reynd ramma efnahagsstefnunnar í heild. Það verk er hafið, m.a. með skýrslu sem Seðlabankinn gaf út um efnið í desember s.l. og kallast Peningastefnan eftir höft ,“ segir Már Guðmundsson.