Verðbólgan er á uppleið og ólíklegt að Seðlabankinn verði undir verðbólgumarkmiði í nánustu framtíð. Lesa má úr síðustu yfirlýsingu peningastefnunefndar að þeim hugnist illa þær launahækkanir sem felast í nýjum kjarasamningum enda tefla þær verðbólgumarkmiði bankans enn frekar í hættu.

Þetta segir í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka í dag. Greiningardeildin gerir ráð fyrir að verðbólga verði yfir markmiði Seðlabankans næstu 1-2 árin. Gangi skammtímaspáin eftir er útlit fyrir að ársverðbólgan verði hærri en 4% í ágúst næstkomandi. Bent er á að verðbólguvæntingar hafi hækkað að undanförnu, en peningastefnunefnd hefur ítrekað líst áhyggjum sínum af slíkri þróun. Þessu til viðbótar séu aukin umsvif á fasteignamarkaði nú þegar farin að setja strik í reikninginn.

Stýrivextir hafa náð botni

Í ljósi alls þessa er ljóst að Seðlabankinn stendur á krossgötum . Brennur þar helst spurningin hvort Seðlabankinn hækki vexti vegna versnandi verðbólguhorfa á sama tíma og veikur efnahagsbati er í augsýn? Einnig er ljóst að pólitískur þrýstingur mun aukast í þá átt að Seðlabankinn horfi framhjá versnandi verðbólguhorfum í vaxtaákvörðunum sínum. Enda má segja að vaxtahækkun ofan í efnahagsslaka sé eingöngu til þess fallin að auka enn frekar á slakann í hagkerfinu, en slíkt samræmist varla þeim háleitu markmiðum sem sett eru fram í kjarasamningum um að hagvöxtur næstu ára verði 4-5% á ári. Að mati Greiningardeildar er hins vegar ljóst út frá verðbólguhorfum að stýrivextir hafa náð botni í núverandi vaxtalækkunarskeiði,“ segir í Markaðspunktum.

Spá 0,7% hækkun í maí

„Greiningardeild spáir 0,7% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í maí. Gangi spá okkar eftir mun tólf mánaða verðbólga mælast 3,1% samanborið við 2,8% í apríl. Að þessu sinni hefur eldsneytisverð engin áhrif á verðbólgutölur. Að stærstum hluta má rekja þessa háu verðbólgu í mánuðinum til gjaldskrárhækkunar OR og vanmats Hagstofunnar á byggingarkostnaði.

Helstu þættir í maíspánni,

· Reikniskekkja Hagstofunnar. Vegna uppsafnaðs vanmats Hagstofunnar á byggingarvísitölu þarf að endurreikna byggingarkostnaðinn í VNV og koma áhrifin nú fram. Heildaráhrif+0,2%

· Gjaldskrárhækkun OR. Orkuveitan hækkaði gjaldskrár sínar enn eina ferðina þann 1.maí sl, heita vatnið hækkaði um 8% og fráveitugjaldið um 45%. Heildaráhrif +0,14%

· Húsnæðisliðurinn hækkar. Aukin umsvif á fasteignamarkaði hafa skilað sér í hækkandi húsnæðisverði að undanförnu. Við gerum ráð fyrir að svo verði áfram í maí. Heildaráhrif 0,1%.“