Seðlabanki Íslands segir horfur á minni hagvexti í ár en hann áætlaði í maí síðastliðnum og spáir því nú að hagvöxtur muni nema 4,2% á árinu. Fyrri spá bankans gerði ráð fyrir 4,6% hagvexti. Þetta kemur fram í nýjum Peningamálum Seðlabankans .

Þar segir meðal annars að vegna lakara framlags utanríkisviðskipta séu horfur á minni hagvexti í ár en áætlað var í maí. Þrátt fyrir það sé spáð umtalsverðum hagvexti, eða 4,2%, sem yrði mesti hagvöxtur frá árinu 2007 gangi spáin eftir. Áætlað er að vöxtur þjóðarútgjalda verði tæp 7%.

Á næstu tveimur árum spáir bankinn um 3% hagvexti á ári þar sem vegast á aukin þjóðarútgjöld og neikvætt framlag utanríkisviðskipta, en vegna minni aukningar fjárfestingar dragi nokkuð úr vexti þjóðarútgjalda milli ára.

Gangi spáin eftir verður hagvöxtur að meðaltali um 3,33% á ári á spátímanum sem er hátt í 2/3 úr prósentu yfir meðalhagvexti síðustu þrjátíu ára og umtalsvert meira en áætlað er að landsframleiðsla helstu viðskiptalanda muni aukast um á sama tímabili.  Hagvöxtur sé þó um ½ prósentu minni á ári en spáð var í maí, sem m.a. skýrist af áhrifum mikillar hækkunar launakostnaðar í nýgerðum kjarasamningum og harðara taumhaldi peningastefnunnar sem þeim fylgi.