Ráðgjafarfyrirtækið Möttull ehf. vann skýrslu um VBS sem skilað var inn í ágúst 2009. Skýrslan var unnin sameiginlega fyrir Seðlabanka Íslands og VBS á grundvelli samkomulags þeirra um að lagt yrði „mat á það hvort eignir VBS séu mögulega ofmetnar eða hvort aðrir þættir í efnahagsreikningi og starfsemi bankans gætu, vegna eðlis og áhættu, haft áhrif á eiginfjárstöðu hans og rekstrarhæfi“.

Í skýrslunni segir meðal annars: „að okkar mati er endurmetið eigið fé VBS neikvætt um 551 millj. kr. Ekki er talin ástæða til sérstakrar yfirferðar á þessum lið þar sem það er skoðun okkar að eiginfjárhlutfall bankans [...] sé lægra en 8% að lokinni þessari yfirferð.“ Seðlabanka Íslands var því ljóst í ágúst 2009 að eigið fé VBS væri neikvætt þrátt fyrir 9,4 milljarða króna tekjufærslu á láninu frá íslenska ríkinu.

Vissi um ógjaldfærni

Í afstöðubréfi slitastjórnarinnar segir að „í stað þess að knýja bankann í umsjá Fjármálaeftirlitsins, eins og þá bar að gera [...] veitti Seðlabankinn lán til VBS að fjárhæð 52,8 milljónir króna í lok ágúst 2009 með gjalddaga 15. október 2009, að því er virðist til að standa straum af greiðslu launa o.fl. Eftir þetta tímamark, í september 2009, tók bankinn veð í innstæðu VBS [...] Er því vafalaust að Seðlabankinn var grandsamur um ógjaldfærni VBS þegar til þessarar veðsetningar var stofnað til tryggingar lánssamningum við ríkissjóð, hvað sem öðru líður“. Í bréfinu segir einnig að það sé „augljóst af framvindu mála eftir gerð lánssamningsins í mars 2009 að VBS gat ekki staðið við greiðslur af honum og sú lagaskylda hvíldi á Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu að grípa til aðgerða gegn bankanum þá þegar er vanskil urðu“. VBS var ekki tekinn yfir af FME fyrr en í mars 2010. Bankinn átti þá ekki laust fé fyrir launum starfsfólks.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðíð hér að ofan undir liðnum Tölublöð.