Eitt helsta markmið Seðlabankans með því að skuldbinda sig með skýrari hætti en áður til aukinnar sveiflujöfnunar á gengi krónunnar er líklega að hafa áhrif á gengis- og verðbólguvæntingar, að mati greiningardeildar Arion banka. Í Markaðspunktum greiningardeildarinnar segir að Seðlabankinn hafi sennilega ekki farið varhluta af umræðu um að kaupmenn hafi beðið með að skila styrkingu krónunnar í lækkuðu vöruverði þar sem þeir búast við því að hún muni ganga til baka.

Slík tregða í verðbólguvæntingum dragi mjög úr hraða hjöðnunar verðbólgu. „Að öllu ofansögðu teljum við þannig nær öruggt að bankinn gæti gripið til inngripa til stuðnings krónunni við lægra gengi en áður til þess að skapa væntingar um að krónan veikist ekki frekar, og skapa nægilegt traust meðal heimila og fyrirtækja til þess að gengisstyrkingin skili sér í hjöðnun verðbólgu,“ segir í markaðspunktunum.

„Takist bankanum að skjóta gólfi undir gengisvæntingar mun honum jafnframt reynast auðveldara að fara á kauphliðina og safna gjaldeyri í forðann þegar innstreymi eykst – t.d. með komum ferðamanna í sumar – án þess að bregða markaðnum og koma af stað veikingarhrinu. Athygli vekur að bankinn ætlar að beita óreglulegum kaupum sem skilyrðast af aðstæðum, og kveður þar við nýjan tón miðað við hegðan bankans frá haustinu 2010 til ársloka 2012 þegar hann stundaði regluleg vikuleg kaup af hverjum viðskiptavaka.“