Seðlabanki Íslands greip inn í á gjaldeyrismarkaði á gamlársdag og keypti krónur fyrir rúman milljarð króna. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að krónan hafi þótt vera búin að veikjast óhóflega á stuttum tíma af ástæðum sem séu tímabundnar. "Þess vegna vildum við mæta þeirri gjaldeyrisþörf sem þar var að baki, að einhverju leyti með inngripum," segir Már. Hann segir fallið hafa verið orðið óhóflegt í ljósi aðstæðna.

Síðast greip Seðlabankinn inn í viðskipti á gjaldeyrismarkaði með sambærilegum hætti í mars 2012. Upphæðin núna er um helmingi lægri en þá. Bankinn er alla jafna kaupandi gjaldeyris á markaði en hann kaupir gjaldeyri fyrir um 500 milljónir króna hvern þriðjudag.

Krónan hefur veikst um 12% frá því í desember og lækkun á síðustu viðskiptadögum ársins nam rúmlega 2%. Már bendir á að gengi krónunnar hafi ekki verið lægra síðan í mars á síðasta ári. Til þess að finna enn veikari krónu þarf að fara allt aftur til febrúarmánaðar 2010.

Spurður um ástæður fyrir veikingu segist Már ekki geta upplýst um stöðu einstakra aðila en hana megi meðal annars rekja til „innanhústiltekta“ fyrir áramót. Þá virðist sem meiri þungi hafi verið í úttektum erlendra aðila á vaxtatekjum af skuldabréfum. Þær úttektir reyndust töluvert meiri en undir lok árs 2011.