Nauðasamningar slitabúa föllnu bankanna munu leysa greiðsluflæðisvanda tengdan búunum með fullnægjandi hætti, að mati Seðlabanka Íslands. Kemur þetta fram í svari bankans við umsögn InDefence hópsins um mat Seðlabankans á undanþágubeiðnum slitabúanna.

Í svarinu segir að greining InDefence á greiðslujafnaðarvandanum virðist byggjast á grundvallarmisskilningi á eðli hans og þeirri skoðun að nánast allar skuldir sem þurfi að endurfjármagna á gjalddaga feli í sér yfirvofandi gjaldeyrisútstreymi. „Lykilatriði er að Ísland mun koma út úr þeim umbreytingum á efnahagsreikningi þjóðarbúsins sem eiga sér stað í slitaferli skv. nauðasamningum fallinna fjármálafyrirtækja með hagstæðari skuldahlutföll en landið hefur búið við um áratuga skeið, hvort heldur litið er á vergar eða hreinar skuldir. Staða einstakara aðila sem standa á bak við skuldirnar, þ.e.a.s. ríkissjóðs, banka, orkufyrirtækja, stóriðjufyrirtækja í eigu erlendra aðila og fyrirtækja í erlendri starfsemi, er einnig slík að ekki er líklegt að endurfjármögnunarvandi komi upp á næstu árum. Með umtalsverðri lengingu á skuldbindingum viðskiptabanka fá þeir aukið svigrúm til að endurfjármagna erlendar skuldir,“ segir í svarinu.

Þar segir jafnframt: „Nauðasamningarnir munu leysa greiðsluflæðisvandann með fullnægjandi hætti. Niðurstaða ID þess efnis að lausn nauðasamninganna sé ekki fullnægjandi byggist á því að ekki er tekið tillit til þess i) að fjármagnshreyfing sem felur í sér nettun krafna á innlendar eignir á móti erlendum eignum ESÍ veldur ekki óstöðugleika gengis krónunnar, ii) að skuldir banka og ríkis eru almennt endurfjármagnaðar á gjalddaga og það að skuld sé á gjalddaga feli því aðeins í sér greiðslujafnaðaráhættu að aðgengi að erlendum lánsfjármörkuðum sé afar takmarkað og iii) að vaxtagreiðslur geti því aðeins talist greiðslujafnaðarvandi að skuldastaða sé ósjálfbær.“

Að lokum segir í svarinu að rétt sé að taka fram að áætlun um losun fjármagnshafta miði ekki að því uppgjör slitabúanna fjármagni aðra liði áætlunarinnar. „Slíkt færi í bág við þau sjónarmið sem lágu að baki stöðugleikaskatti sem voru að slitabúin sjálf yrðu að leysa greiðslujafnaðarvanda og vanda fyrir fjármálakerfið sem af slitum þeirra stafar. Það virðist vera sjónarmið ID að nota eigi slitin til þess að ná markmiðum sem ganga lengra en að tryggja stöðugleika við slitin. Efast má um lagalegan grundvöll þess.“