„Við höfum nóg til að svara villtustu vonum til að byrja með,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Hann sýndi í fyrsta sinn í dag eintak af nýjum 10.000 króna peningaseðli sem fer í umferð í næsta mánuði. Már sagði á fundi í dag notkun peningaseðla hafa aukist mikið við upphaf bankahrunsins og kortanotkun dregist saman. Notkunin jókst m.a. vegna aukins fjölda erlendra ferðamanna hér á landi.

Már sagði í samtali við VB Sjónvarp þörf hafa myndast fyrir verðmeiri peningaseðli og því ráðist í að búa til 10.000 króna seðil. Þá benti hann á að einn af lærdómum fjármálahrunsins sé sá að nauðsynlegt er að hafa nægar seðlabirgðir í landinu.