*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 6. desember 2016 12:47

Seðlabankinn fór offari

Höfundur bókar um gjaldeyriseftirlit Seðlabankans segir bankann hafa farið offari í málefnum Aserta, Úrsus og Samherja.

Höskuldur Marselíusarson

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa embættismenn Seðlabanka Íslands verið kærðir á þeim forsendum að þeir hafi borið menn röngum sökum. 

Vilja ákærendur meina að gjaldeyriseftirlitið og starfsmenn þeirra hafi farið offari í aðgerðum gegn sér, en nú er komin út bók sem fer yfir sögu og aðgerðir gjaldeyriseftirlitsins síðan því var á ný komið á fót.

Gjaldeyriseftirlitið: Vald án eftirlits?

Björn Jón Bragason, lögfræðingur og sagnfræðingur, skrifaði bókina Gjaldeyriseftirlitið: Vald án eftirlits?, sem Almenna bókafélagið hefur gefið út núna fyrir komandi jólabókavertíð. 

„Ég fjalla sérílagi um þau þrjú mál sem vakið hafa mesta athygli af þeim málum sem gjaldeyriseftirlitið hefur rekið,“ segir Björn Jón í samtali við Viðskiptablaðið.

„Það eru málin sem kennd eru við sænska félagið Aserta, við Úrsus og svo Samherja, en ég rek líka um hvernig starfsemi gjaldeyriseftirlitsins var háttað, hvernig það varð til og hvernig það óx“

Starfsmaður með takmarkaða reynslu hafði frjálsar hendur

Björn Jón segir að þrátt fyrir að gjaldeyriseftirlit hafi verið við lýði hér á árum áður hafi engar gamlar kempur verið sóttar til að sjá um að koma henni á fót á ný eftir hrunið.

„Nei, það var ekki gert, það var fenginn starfsmaður frá Straumi Burðarás og ungur lögfræðingur, Ingibjörg Guðbjartsdóttir, sem hafði reyndar mjög takmarkaða reynslu sem lögmaður og af stjórnsýslu. 

Hún hafði svo frjálsar hendur í byrjun um val á starfsfólki en þá voru engin störf auglýst,“ segir Björn Jón.

„Þetta er auðvitað mjög sérstakt, þar sem allt formlegt gjaldeyriseftirlit hafði verið afnumið við upptöku frjálsra gjaldeyrisviðskipta um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Gjaldeyriseftirlit hafði ekki verið starfandi í Seðlabankanum í að minnsta kosti fimmtán ár.“

Beittu ósamþykktum reglum

Björn Jón segir að strax í byrjun hefði verið bent á mistök bankans sem hann hefði hugsanlega getað beðist afsökunar á strax þá.

„Lögmenn sakborninga í Aserta málinu komu strax í upphafi auga á að reglur Seðlabankans höfðu ekki hlotið samþykki ráðherra eins og lög áskilja. Þrátt fyrir að þetta hafi komið fram opinberlega hélt Seðlabankinn áfram að beita þessum reglum,“ segir Björn Jón.

„Og eins og fræðast má um í bókinni, þá gengu þeir ótrúlega langt fram til að mynda í málum Samherja og sést þeim ekki fyrir. 

Til dæmis þegar bankinn fer sjálfur í húsleit, sem er mjög sérstakt, enda vilja margir lögmenn meina að Seðlabankinn hafi ekki heimild til húsleitar, og það hafi verið mjög óeðlilegt að bankanum hafi verið veitt þessi heimild því ekki sé skýrt kveðið á um að hann geti það í lögum.“

Ekkert komið út úr málarekstri bankans

Björn Jón segir ekkert hafa komið út úr málarekstri Seðlabankans.

„Það blasir við að Seðlabankinn hefur farið offari, það hefur verulega skort á um að sjónarmið meðalhófs hafi verið viðhöfð enda bendir ekkert til þess að neitt komi út úr þessum málarekstri.“