Seðlabanki Íslands er það stjórnvald sem oftast hefur gerst brotlegt gegn lögum um jafna stöðu karla og kvenna síðastliðinn áratug. Bankinn hefur í fjögur skipti gerst brotlegur við jafnréttislög.

Þetta kemur fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Hönnu Katrínar Friðriksson, þingflokksformanns Viðreisnar. Um framhaldsfyrirspurn var að ræða en í þeirri fyrri hafði þingmaðurinn spurt hve oft stjórnvöld hefðu gerst brotleg við lögin. Í þeirri síðari var spurt hvaða stofnanir höfðu brotið lögin.

Í síðara svarinu kemur fram að bankinn hafi brotið lögin fjórum sinnum, fyrst árið 2012, í tvígang árið 2015 og að lokum í fyrra. Brotin árið 2015 vörðuðu mismunun í launum þar sem tveimur konum innan bankans voru greidd lægri laun en körlum í sambærilegu starfi. Hin tvö skiptin réð bankinn karl fram yfir konu.

Frá árinu 2009 til 2019 hefur verið brotið gegn lögunum í 25 skipti. 24 tilvik varða stjórnvöld en eitt tilvik varðaði ráðningu í starf hjá Nýja Kaupþing banka hf. Þrír aðilar hafa brotið gegn lögunum í tvígang. Það eru Akureyrarbær, innanríkisráðuneytið og Landspítalinn.

Fimm brot af áðurnefndum 25 brotum vörðuðu mismunun í launum eða öðrum kjörum. Í öllum tilvikum var brotið gegn konum. Hin skiptin tuttugu varða ráðningu í starf en þar hefur þrettán sinnum verið brotið gegn konum og sjö sinnum gegn körlum. Ekki liggur fyrir hve háar fjárhæðir ríkissjóður hefur greitt í bætur vegna úrskurða kærunefndar jafnréttismála.