Innlendir fjárfestar áttu 17% af fjárhæðum í nýjasta gjaldeyrisútboði Seðlabankans, að því er kemur fram í frétt á vef bankans. Þar segir að vegna skrifa í Morgunkorni Íslandsbanka um að verulegur hluti þessi fjár sem komi inn í hagkerfið í gegnum 50/50 leiðina svokölluðu séu krónueignir Íslendinga sem hugsanlega kæmu hvort eð er inn í hagkerfið hafi Seðlabankinn ákveðið að greina þátttakendur í útboðinu.

Við greininguna voru erlend félög í eigu innlendra aðila talin sem innlendir fjárfestar. „Útilokað er að leggja mat á að hvaða marki fyrrgreindir fjármunir hefðu skilað sér til landsins án tilvistar útboðanna. Eins og tölurnar bera með sér er greiningardeild Íslandsbanka nokkuð fjarri veruleikanum í ágiskunum sínum,“ segir í grein Seðlabankans.

Seðlabankinn lætur ekki þar við sitja í umfjöllun um Morgunkorn Íslandsbanka. Í greininni er tekið fram að Seðlabankinn leggi það ekki í vana sinn að leiðrétta vangaveltur greiningardeilda bankanna telur rétt við þetta tilefni að benda á misvísandi frásögn í Morgunkorninu frá 4. febrúar.“

Þar sagði að í fyrra hafi fjárfestar selt 191 milljónir evra fyrir ríflega 45 milljarða króna samkvæmt 50/50 leiðinni. Seðlabankinn segir að þarna nefni greiningardeildin aðeins þá fjárhæð sem fari í gegnum útboðin. „Fjárfestingarleiðin byggir hins vegar á að auk þeirra fjármuna sem fara í gegn um útboðin selji fjárfestir jafn háa fjárhæð gjaldeyris hjá innlendri fjármálastofnun. Samanlagðar fjárfestingar á grundvelli fjárfestingarleiðarinnar á nýliðnu ári námu því 381,4 milljónum evra sem samsvarar liðlega 76 ma.kr. Fjárfestingarnar námu því 4,7% af vergri landsframleiðslu ársins 2011. Ljóst er því að útboðin hafa þegar haft töluverð áhrif.“