Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, hefur samkvæmt frétt Fréttablaðsins í dag kallað stjórnendur Seðlabanka Íslands og Samkeppniseftirlitsins á sinn fund í næstu viku til að reyna að finna lausn á deilumáli á milli stofnananna.

Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið að leggja dagssektir að fjárhæð 1,5 milljónir króna á Seðlabanka Íslands. Dagssektir eru lagðar á vegna þess að bankinn hafnaði beiðni eftirlitsins um að leggja fram upplýsingar um útlán einstakra banka og sparisjóða, að því er fram kom á heimasíðu Seðlabankans í lok apríl.

Árni Páll segir við Fréttablaðið deiluna óheppilega og að greiða verði úr henni sem fyrst. „Það er mikilvægt að eftirlitsstofnanir vinni í takt. Það er einn af lærdómum hrunsins að þær deili upplýsingum að því marki sem mögulegt er. Það er líka mikilvægt að nauðsynlegur trúnaður gildi um viðkvæmar upplýsingar. Það er líka brýnt að þeir sem láta trúnaðarupplýsingar frá sér til tiltekinna stofnanna geti treyst því að farið sé með þær af virðingu," segir Árni Páll í samtali við Fréttablaðið.