Seðlabankinn hefur gefið leyfi fyrir innflæði á rúmum 15,7 milljörðum króna frá því létt var á gjaldeyrishöftum í nóvember árið 2009, um ári eftir að þau voru sett. Þetta kemur fram í svari Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur alþingismanns.

Leyfið er í raun undanþága frá höftunum. Árið 2009 gaf Seðlabankinn heimild til að flytja hingað 181 milljón aflandskrónur. Ári síðan hljóðaði upphæðin upp á tæpa 11,8 milljarða króna. Það sem af er ári hefur bankinn veitt heimild fyrir flutningi á tæpum 3,8 milljörðum króna af aflandskrónum hingað til lands.

Vigdís spurði bæði um heildarupphæðina og hverjir það hafi verið sem fengu undanþágu frá höftunum.

Árni Páll byggði svör sín á upplýsingum frá Seðlabankanum. Í þeim kemur fram í svari Seðlabankans að hann hafi ekki yfir að ráða upplýsingum um það hver sé heildarfjárhæð innstreymis innlends gjaldeyris frá því að gjaldeyrishöft voru sett á fyrir að verða þremur árum.

Þá kemur fram í svari Seðlabankans að bankinn sé bundinn þagnarskyldu og geti því ekki upplýst hverjir hafi fengið að flytja inn aflandskrónurnar.