Seðlabanki Simbabve telur sjónvarpsáhorf landsmanna valda lausafjárskorti í landinu. Þetta kemur fram á fréttaveitu Bloomberg, en seðlabankinn segir landsmenn eyða meiru í sjónvarpsáskriftir en innflutning á hráefnum.

Simbabve gengur nú í gegnum eina verstu kreppu sögunnar, en fyrirtæki í landinu hafa ekki getað greitt erlendum birgjum og starfsmönnum.

Hagkerfið dróst saman um 0,3% í fyrra og er því spáð að samdrátturinn muni nema allt að 2,5% í ár.

Samkvæmt Bloomberg eyddu landsmenn um 207 milljónum dala í sjónvarpsáskriftir á síðustu sex mánuðum ársins 2016.

Yfirvöld hafa gripið til ráðstafana og stefna að því að setja fólki frekari skorður, til þess að leysa vandann.