Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að undanskilja tiltekna fjármuni frá bindingargrunni þeim sem nýlegar reglur bankans um bindingu reiðufjár eiga við um, sem settar voru á sama tíma og gjaldeyrishöftin voru rýmkuð. Þetta kemur fram í frétt á vef Seðlabanka Íslands.

Reglurnar um bindingargrunninn eru hluti af auknum þjóðhagsvarúðartækjum sem Seðlabankinn hefur yfir að ráða til að stýra innflæði fjármagns og koma í veg fyrir vaxtamunaviðskipti.

Ákveðnar innstæður undanskildar

Er með reglubreytingunum meðal annars vikið frá því skilyrði að fjárfesting í hlutdeildarskírteinum sjóða skapi undantekningarlaust bindingarskyldu ef viðkomandi sjóður á innstæðu.

Einnig eru ákveðnar innstæður undanskildar sem og að einstaklingum er veitt undanþága upp að ákveðnum fjárhæðarmörkum.

Eiga að tempra fjármagnsflæði í kjölfar losunar gjaldeyrishafta

Eins og fram hefur komið áður hefur Seðlabankinn fengið heimild til að tempra og hafa áhrif á samsetningu fjármagnsflæðis til landsins, svokallað fjárstreymisæki, sem er hluti af þjóðhagsvarúðartækjum bankans.

Byggist það á bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris, og er þar kveðið á um bindingargrunn, bindingartíma, bindingarhlutfall, uppgjörsmynt bindingar og vexti á fjárstreymisreikingum innlánsstofnana hjá Seðlabanka Íslands.

Nýtt innstreymi erlends gjaldeyris myndar bindingargrunn

Telst bindingargrunnurinn vera nýtt innstreymi erlends gjaldeyris í tengslum við tiltekna fjármuni, einkum nýfjárfestingu í rafrænt skráðum skuldabréfum og víxlum og innstæður, en auk þess getur nýtt innstreymi í tengslum við lánveitinar, sem nýttar eru til fjárfestingar í fyrrgreindum fjármunum, myndað bindingargrunn.

Gera lögin ráð fyrir því að bindingartími geti orðið allt að fimm ár og bindingarhlutfallið hæst 75%, en samkvæmt núgildandi reglum er bindingartíminn eitt ár og hlutfallið 40%, og vextirnir 0% á fjárstreymisreikningum innlánsstofnana hjá Seðlabankanum vegna nýs innstreymis. Jafnframt sé uppgjörsmynt bindingar íslenskar krónur.

Undanskilja innstæður eftir vöxtum, fjárhæðum og tilvikum

Reglubreytingin felur í sér að bindingargrunninum er breytt þannig að innstæður í innlendum gjaldeyri sem beri lægri ársvexti en 3,0% eru gerðar undanskildar bindingargrunni þegar þær séu tilkomnar vegna nýfjárfestinga eða endurfjárfestinga þeirra.

Jafnframt verða fjárfestingar í hlutdeildarskírteinum sjóða undanskildar bindingargrunni ef samanlagt hlutfall reiðufjár og innlána í eignasamsetningu sjóðsins er 10% eða lægra.

Rýmkaðar fyrir einstaklinga

Einstaklingum verður veitt undanþága frá bindingarskyldu upp að nánar tilgreindu fjárhæðarmarki, að því tilskyldu að þeir séu raunverulegir eigendur umræddra fjármuna.