Seðlabanki Íslands segir í tilkynningu að hann bjóðist til að kaupa evrur gegn greiðslu í ríkisverðbréfi. Útboðið sé liður í losun hafta á fjármagnsviðskiptum, samanber áætlun Seðlabankans um losun gjaldeyrishafta frá 25. mars 2011.

„Markmið þessara aðgerða er að endurheimta þann gjaldeyri sem Seðlabanki Íslands nýtti til kaupa á aflandskrónum í fyrra útboði og selja krónur til aðila sem tilbúnir eru til að eiga þær í a.m.k. 5 ár. Þetta er gert með því að bjóða aðilum sem eiga gjaldeyri sem ekki er skilaskyldur að kaupa löng skuldabréf ríkissjóðs sem verða í vörslu í 5 ár. Aðgerðin stuðlar þannig jafnframt að því að fjármagna ríkissjóð á hagkvæman hátt til langs tíma og draga þannig úr endurfjármögnunarþörf á meðan losað er um gjaldeyrishöft," segir í tilkynningunni.

Morgunverðarfundur Félags kvenna í atvinnurekstri og utanríkisráðuneytisins
Morgunverðarfundur Félags kvenna í atvinnurekstri og utanríkisráðuneytisins
© BIG (VB MYND/BIG)
Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði á kynningarfundi vegna ákvörðunar peningastefnunefndar um stýrivexti sl. miðvikudag að starfsfólk bankans hefði orðið vart við áhuga á að kaupa þessar krónur fyrir gjaldeyri. Nú kemur í ljós hversu mikill áhuginn er, en horft er til lífeyrissjóðanna í þessu tilviki eins og mörgum öðrum þessi misserin. Nokkur hagnaðarvon er í viðskiptum sem þessum þar sem krónurnar eru alla jafna ódýrari, þ.e. að kaupendur fá fleiri krónur fyrir hverja evru, en samkvæmt opinberri gengisskráningu. Og lífeyrissjóðina vantar skjótfengna uppreiknaða ávöxtun til að bæta tryggingastöðu sína.

Tilboðsfrestur til 28. júní

Aðalmiðlurum á skuldabréfamarkaði er boðið að hafa milligöngu um viðskiptin. Seðlabankinn býðst til að kaupa 64 milljónir evra gegn greiðslu í ríkisverðbréfum í flokknum RIKS 30 0701. Tilboðum skal skilað fyrir 28. júní 2011. Nánari lýsingu á framkvæmd útboðsins er að finna í útboðskilmálum.