Seðlabanki Íslands hefur sjaldan verið jafn óvirkur á millibankamarkaði með gjaldeyri og í sumar, segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Þetta er þvert á yfirlýsingar Peningastefnunefndar Seðlabankans sem sagði um miðjan maí síðastliðinn að forsendur væru fyrir aukinni virkni bankans á gjaldeyrismarkaði með það að markmiði að draga úr gengissveiflum. Síðan þá hefur Seðlabankinn gripið sex sinnum inn í millibankamarkaðinn með gjaldeyri.

Greining Íslandsbanka segir að frá því Seðlabankinn tók upp nýja stefnu sína um aukna virkni á gjaldeyrismarkaði hefur gengi krónunnar styrkst um ríflega 1,9% en verðbólgan aukist úr 3,3% í 3,8%. Nokkur stöðugleiki hefur því einkennt gengi krónunnar þó að verðbólgan hafi fæst í aukanna á tímabilinu. Greining Íslandsbanka segir að ný stefna kunni að hafa haft áhrif á gengisþróunina umfram það sem inngripin sjálf hafi valdið þar sem þau hafi haft áhrif á væntingar um gengisþróun krónunnar bæði í sumar og á næstu mánuðum.

Frá því um miðjan júlí hefur Seðlabankinn gripið fjórum sinnum inn í gjaldeyrismarkaðinn og keypt samtals 12 milljónir evra fyrir krónur. Eru þetta fyrstu gjaldeyriskaup bankans frá því ný stefna var tekin upp. Eru kaupin gerð í ljósi þess að krónan hefur frekar verið að sækja í sig veðrið. Hefur bankinn hins vegar tvívegis á tímabilinu selt úr gjaldeyrisforða sínum samtals 6 milljónir evra. Var það í maí sl. og var salan gerð til að stuðla gegn veikingu krónunnar sem þá var.