Peningastefnunefnd Seðlabankans telur að skoða þurfi mögulega beitingu stjórntækja sem hægt væri að nota við stýringu á lausu fé í umferð og til þess að stýfa gjaldeyrisinngrip bankans þegar svo ber undir. Þetta kemur fram í fundargerðfrá fundi peningastefnunefndar 2. og 3. maí sem birtist í dag.

Hrein gjaldeyriskaup bankans námu rúmlega tólf milljörðum króna frá síðasta fundi í febrúar og var hlutur bankans 27% af heildarveltu á gjaldeyrismarkaði á tímabilinu.

Nefndarmönnum fannst sem slakinn í þjóðarbúinu væri horfinn og að spenna væri tekin að myndast á vinnumarkaði. Einnig kom fram að gert væri ráð fyrir 4,6% hagvexti í ár og tæplega 3% hagvexti á næstu tveimur árum.

Samhljómur um vaxtahækkun

Í umræðu nefndarinnar um hækkun verðbólgu kemur fram að horfur hefðu versnað verulega. Verðhækkanir væru á breiðum grunni sem endurspegluðust í hraðri aukningu undirliggjandi verðbólgu auk þess sem verðbólguvæntingar höfðu hækkað á alla mælikvarða. Nefndarmenn gera ráð fyrir að samspil vaxtahækkana og hertra lánaskilyrða muni hægja á verðhækkun húsnæðis sem vegið hefur þungt í vísitölu neysluverðs upp á síðkastið. Eftirspurn eftir húsnæði og hækkun húsnæðisverðs hefðu verið meiri en nefndin hefði gert ráð fyrir og að framboð húsnæðis hefði aukist hægar.

Allir nefndarmenn voru sammála tillögu seðlabankastjóra um að hækka meginvexti bankans um eitt prósentustig, upp í 3,75%.

Nefndin taldi líklegt að herða þyrfti taumhald peningastefnunnar enn frekar á næstu mánuðum til að tryggja að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. Helstu rökin fyrir hægari vaxtahækkunum eru að alþjóðlegar efnahagshorfur gætu versnað meira en búist væri við, sem myndi að öðru óbreyttu draga úr hagvexti hér á landi.