Í Seðlabankanum hafa um alllangt skeið verið til skoðunar ýmsar hugmyndir um framkvæmd áætlunar um losun fjármagnshafta, m.a. frá ýmsum aðilum utan bankans, segir í tilkynningu Seðlabankans til Kauphallarinnar. Engin afstaða hafi aftur á móti verið tekin til þessara hugmynda og á þessu stigi sé ótímabært að fullyrða um hvaða leiðir verða farnar.

Tilkynning Seðlabankans er send út vegna fréttar í Morgunblaðinu í dag þar sem segir að áformað sé að takmarka þá fjárfestingarkosti sem aflandskrónueigendur geta fjárfest fyrir hér á landi. Í frétt Morgunblaðsins segir að nú standi yfir vinna í Seðlabankanum varðandi breytingar á áætlun um afnám gjaldeyrishafta og á meðal þess sem bankinn leggi til sé að gera aflandskrónueigendum óheimilt að fjárfesta í styttri skuldabréfaflokkum – heldur aðeins í lengri ríkisskuldabréfum.

Þá segir í fréttinni að einnig sé verið að leita leiða til að auka þátttöku í gjaldeyrisútboðum Seðlabankans með því að gera breytingar sem miða að því að auðvelda fyrirtækjum með erlenda fjármögnun að taka þátt í fjárfestingarleið Seðlabankans.