Fjármálaeftirlit SÍ gerir athugasemd við orðalag tveggja auglýsinga Íslenskra verðbréfa á sjóðum í rekstri sínum og segir fullyrðingar í þeim vera misvísandi og blekkjandi. Meðal þess sem stofnunin gagnrýnir er að auglýsingarnar „vísuðu til fortíðar og að árangur í fortíð gæfi ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur“.

Auglýsingarnar birtust á samfélagsmiðlum fyrir ári síðan, eða í janúar 2020, en stofnunin hóf að gera athugun á því hvort umrædd markaðssetning hafi verið í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti og reglugerð um fjárfestavernd og viðskiptahætti, í febrúar sama ár.

Niðurstaða eftirlitsins er sú að orðalagið hafi ekki samræmst kröfum 14. greinar laganna frá 2007, og 3. og 4. málsgreinar 28. greinar ofangreindrar reglugerðar frá sama ári. Að mati FME Seðlabanka Íslands fól orðalag auglýsinganna í sér samanburð við aðra sjóði án þess að fram kæmi með skýrum hætti hvaða lykilstærðir eða forsendur voru notaðar við samanburðinn.

„Þar af leiðandi var, að mati Fjármálaeftirlitsins, erfitt fyrir fjárfesta að meta hvort samanburðurinn væri marktækur eða hvort hann væri settur fram af sanngirni og jafnræði,“ segir í tilkynningu sem birtist á vef Seðlabankans í dag um málið.

„Þá taldi Fjármálaeftirlitið að fullyrðingarnar fælu einnig í sér upplýsingar um þróun og gengi sjóðanna þar sem vísað væri til ávöxtunar þeirra, án þess að settar væru fram fullnægjandi upplýsingar fyrir síðastliðin fimm ár m.v. 12 mánaða tímabil eða að fram kæmi viðvörun um að tölurnar vísuðu til fortíðar og að árangur í fortíð gæfi ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.“