Fjármálaeftirlit Seðlabankans gagnrýnir hvernig stjórn Lífeyrissjóðs Verslunarmanna (LIVE) hagaði ákvörðun um að fjárfesta ekki í hlutafjárútboði Icelandair Group í september samkvæmt tilkynningu frá Seðlabankanum .

Ákvörðunin féll á jöfnu en sá helmingur stjórnar sem skipaður er að VR greiddi atkvæði gegn því að sjóðurinn tæki þátt í útboðinu. Fulltrúar atvinnurekenda í stjórninni vildu að LIVE tæki þátt í útboðinu. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hafði gagnrýnt Icelandair harðlega í aðdraganda útboðsins og hafði kallað eftir því að LIVE tæki ekki þátt í útboðinu. Fyrir útboðið var LIVE stærsti hluthafi Icelandair.

Seðlabankinn segir að ekki hafi verið gætt að því „með fullnægjandi hætti að meta hæfi einstakra stjórnarmanna við undirbúning og ákvörðun um hvort sjóðurinn tæki þátt í hlutafjárútboðinu.“

Seðlabankinn fer því fram á að stjórn lífeyrissjóðsins muni framvegis tryggja að fullnægjandi umræða fari fram á stjórnarfundum um hæfi stjórnarmanna þegar tilefni væri til þess. Þá þurfi stjórnarmönnum að vera tryggður kostur á að koma á framfæri upplýsingum sem varða hæfi þeirra í tengslum við þau mál sem sé til umræðu.

Þá taldi Seðlabankinn að upplýsingagjöf sjóðsins til bankans vegna athugunarinnar hafi verið ábótavant og misvísandi sem tafði afgreiðslu málsins. Því mun Seðlabankinn fara fram á að nauðsynlegar úrbætur verði gerðar hjá stjórn LIVE.