Seðlabanki Íslands spáir 3,3% hagvexti í ár samanborið við 3,6% hagvöxt í fyrra. Þetta kemur fram í nýju Peningamálahefti bankans. Bankinn hafði áður spáð 3,2% hagvexti í ár.

Jafnframt telur Seðlabankinn að hagvöxtur verði 3,0% að jafnaði út áratuginn. Þá gerir bankinn ráð fyrir að verðbólga verði nærri markmiði bankans en að það dragi úr spennu í hagkerfinu jafnt og þétt. Spáð er 2,6% verðbólgu í ár og á næsta ári.

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað í morgun að halda stýrivöxtum óbreyttum í 4,25%. Ákvörðunin var í samræmi við væntingar á markaði. Viðbrögð á skuldabréfamarkaði voru því afar lítil.

Nefndin telur að horfur séu á minnkandi spennu í þjóðarbúskapnum en þrátt fyrir það sé enn þörf fyrir peningalegt aðhald til að draga úr örum vexti innlendrar eftirspurnar. Þó svo að undirliggjandi spenna á vinnumarkaði sé til staðar hefur dregið úr hættunni á ósjálfbærum launahækkunum til skamms tíma.