Seðlabankinn segir í Peningamálum að atvinnuleysi muni fara úr 7,3% í desember síðastliðnum í 6,3% í ár og verði það komið í 4,5% árið 2014. Til samanburðar mældist atvinnuleysi 7,4% á öllu síðasta ári. Til samanburðar mældist atvinnuleysi 8,0% í desember árið 2010.

Í Peningamálum bankans er vísað til þess að vísbendingar úr viðhorfskönnun Gallpu í desember gefi til kynna að 7,5% fleiri fyrirtæki vilji fækka starfsfólki á næstu sex mánuðum en fjölga. Það sé um hlemingi lægra hlutfall en í sambærilegri könnun í október í fyrra. Hörfur í atvinnumálum séu reyndar svipaðar og við útgáfu síðustu Peningamála sem kom út í nóvember á síðasta ári.

ASÍ spáir meira atvinnuleysi

Alþýðusamband Íslands gerir ráð fyrir því í endurskoðaðri hagspá sinni sem birt var í gær að atvinnuleysi verði aðeins meira en Seðlabankinn gerir ráð fyrir. Í hagspánni segir að draga muni úr atvinnuleysi í takt við bata efnahagslífsins. Það fari úr 7,4% að meðaltali í fyrra í 6,6% á þessu ári og í 4,9% árið 2014. Gangi það eftir muni það markmið sem aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld settu sér við gerð kjarasamninga í fyrravor um að ná atvinnuleysi niður fyrir 5% í lok næsta árs því ekki nást.