Seðlabanki Íslands spáir 8% samdrætti landsframleiðslu í ár sem yrði jafnframt mesti samdráttur hérlendis í heila öld. Þetta kemur fram í Peningamálum, riti Seðlabankans, sem birt var samhliða ákvörðun Peningastefnunefndar Seðlabankans í morgun að lækka meginvexti bankans um 0,75% sem standa nú í 1% .

Fækkun ferðamanna um tæp 80% vegur hvað þyngst í spá Seðlabankans. Útflutningur í heild mun dregst því saman um rúman þriðjung sem yrði mesti samdráttur í útflutningi á einu ári frá upphafi þjóðhagsreikninga hér á landi.

Atvinnuleysi eykst verulega en Seðlabankinn spáir því að það nái hámarki í um 12% á þriðja ársfjórðungi. Hann telur að atvinnuleysi verði 9% að meðaltali á árinu öllu sem yrði mesta atvinnuleysi frá upphafi mælinga.

Grunnspá SÍ gerir ráð fyrir að efnahagsumsvif taki smám saman að færast í eðlilegt horf á seinni hluta ársins og að ferðamenn fari ekki að koma til landsins að ráði fyrr en á næsta ári.

Seðlabankinn býst þó við kröftugum hagvexti á næsta ári vegna mikils efnahagssamdráttar í ár. Bankinn tekur þó fram að þrátt fyrir að hann spái ágætum hagvexti á næstu tveimur árum er útlit fyrir að farsóttin valdi þjóðarbúinu langvinnum skaða. Gangi spáin eftir yrði landsframleiðslan í lok ársins 2022 um 6% lægri en spáð var í febrúar.

Bankinn spáir því að verðbólga verði heldur meiri á næstu mánuðum vegna gengisveikingar krónunnar en ætti þó ekki að fara undir verðbólgumarkmiðið. Á móti áhrifum lægra gengis vegur mikil lækkun alþjóðlegs olíuverðs. Alþjóðlegt matvæla- og hrávöruverð hefur einnig almennt lækkað þótt verð sumra vara hafi hækkað vegna ýmiss konar framleiðsluvanda og skorts.

Útlit er fyrir að efnahagssamdrátturinn á öðrum ársfjórðungi verð sá mesti sem mælst hefur í þróuðum ríkjum frá upphafi ársfjórðungslegra þjóðhagsreikninga. Talið er að landsframleiðslan í helstu viðskiptalöndum Íslands dragist saman um liðlega 11% milli ára á öðrum fjórðungi ársins.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að heimshagkerfið dragist saman um 3% í ár en sjóðurinn hafði gert ráð fyrir 3% árlegum hagvexti fyrr á árinu. Gangi spáin eftir yrði þetta mesti samdráttur sem mælst hefur í heimsbúskapnum á friðartímum frá því í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Sjóðurinn gerir jafnframt ráð fyrir að alþjóðaviðskipti dragist saman um 11% í ár sem er svipaður samdráttur og varð árið 2009.