Hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi síðasta árs var 2,1% og er nú talið að hagvöxtur á fjórða ársfjórðungi hafi numið 2,9%, sem er um hálfri prósentu minni vöxtur en gert var ráð fyrir í nóvember. Kemur þetta fram í Peningamálum Seðlabankans, en Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, kynnti peningamál á fundi í bankanum í dag.

Gangi þetta eftir reyndist hagvöxtur í fyrra hafa verið 2,2%, sem er 0,3 prósentum minni vöxtur en spáð var í nóvember. Leggjast þar allir undirþættir innlendrar eftirspurnar ásamt útflutningi á sömu sveif en mestu munar um hægari vöxt fjárfestingar og einkaneyslu. Á móti vegur þó að innflutningur var minni en spáð var í nóvember þannig að áætlað er að framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar hafi verið nokkru hagstæðara á síðasta ári en spáð var í nóvember.

Á þessu ári spáir Seðlabankinn einnig nokkru minni hagvexti en í nóvember eða 2,1% í stað 2,9% vaxtar í nóvemberspá bankans. Mestu munar um hægari vöxt fjárfestingar, og þá sérstaklega í orkufrekum iðnaði, en einnig vegur nokkuð þungt hægari vöxtur einkaneyslu. Á móti kemur hins vegar jákvæðara framlag utanríkisviðskipta.

Á móti lakari hagvexti í fyrra og í ár er nú gert ráð fyrir heldur meiri hagvexti á næstu tveimur árum eða 3,7% á næsta ári og 3,9% árið 2015. Skýrist þessi aukning að stærstum hluta forsendu um afturhlaðnari fjárfestingarferil í orkufrekum iðnaði. Hagvöxtur næstu tveggja ára er því að talsverðu leyti drifinn áfram af fjárfestingu auk þess sem vexti einkaneyslu vex ásmegin. Á móti því vegur að framlag utanríkisviðskipta verður neikvætt bæði árin.

Endurskoðun á hagvexti í fyrra og í ár leiðir til þess að spáð landsframleiðsla verður um 1% minni í ár en gert var ráð fyrir í nóvemberspá bankans. Hraðari hagvöxtur næstu tveggja ára veldur því hins vegar að munurinn minnkar þegar líður á spátímann en landsframleiðslan er þó enn um 0,7% lægri árið 2015 en reiknað var með í nóvember. Hún er nú um 5% lægri en hún fór hæst í aðdraganda fjármálakreppunnar, þótt hún hafi aukist um tæplega 8,5% frá því að hún var lægst á fyrri hluta ársins 2010.