Slitastjórn Kaupþings ákvað á föstudaginn sl. að senda út gögn til kröfuhafa með drög af frumvarpi til nauðasamninga, jafnvel þótt bankinn hafi ekki fengið endanlegt svar frá Seðlabanka Íslands um undanþágu frá gjaldeyrishöftum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í morgun.

Slitabúið sendi frumvarpið til Seðlabankans fyrir næstum fjórum mánuðum en bíður enn eftir svörum. Frumvarpinu er ætlað að mæta stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda og byggir í lykilatriðum á þeim tillögum sem sendar voru til framkvæmdahóps um afnám fjármagnshafta.

Slitabú Gamla Landsbankans sendi einnig lykilupplýsingar til kröfuhafa fyrr í október en samkvæmt bandarískum lögum þurfa kröfuhafar að fá fjögurra vikna fyrirvara og bæði slitabú töldu sig ekki geta beðið lengur eftir því að Seðlabankinn svari. Ef Seðlabankinn krefst breytingar á frumvarpinu sem þegar hefur verið sent til kröfuhafa er ólíklegt að nauðasamningar takist fyrir áramót, en samkvæmt bandarískum lögum er óheimilt að gera verulegar efnislega breytingar á nauðasamningsdrögum eftir að upplýsingar hafa verið sendar til kröfuhafa.

Búið að boða til kröfuhafafunda

Kröfuhafafundur mun verða í Kaupþing þann 24. nóvember n.k. þar sem kosið verður um nauðasamninginn, en eftir það fer hann til Héraðsdóms Reykjavíkur til staðfestingar. Slitabú Landsbankans mun gera það sama þann 17. nóvember og Glitnir þann 16. nóvember.