Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,25% milli mánaða í apríl og 12 mánaða verðbólga mælist nú 7,2% sem er talsvert umfram spár greiningaraðila. Konráð S. Guðjónsson, aðalhagfræðingur Stefnis, segir að húsnæðisliðurinn og flugfargjöld skýri einkum að verðbólgan hafi farið fram úr væntingum greiningardeilda. Hann telur að Seðlabanki Íslands þurfi að senda skýr og trúverðug skilaboð um að hann hyggist ná verðbólgu aftur niður í 2,5% verðbólgumarkmið.

Greiningardeildir Íslandsbanka og Landsbankans höfðu spáð 0,7%-0,8% mánaðarhækkun vísitölu neysluverðs í apríl og að ársverðbólgan myndi því mælast 6,7%-6,8%. Hagfræðideild Landsbankans hafði raunar spáð því að verðbólgan færi hæst í 7% í júní og færi svo hjaðnandi. Greining Íslandsbanka hafði hins vegar spáð því að verðbólgan myndi aukast áfram og ná hámarki í 7,7% í júní en myndi svo hjaðna hægt og bítandi.

Konráð segir í samtali við Viðskiptablaðið að það séu helst tvær ástæður fyrir því að verðbólgutölurnar hafi verið umfram spár greiningaraðila. Hann bendir á að spárnar hafi komið út áður en Þjóðskrá greindi frá því að vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað um 3,1% á milli mánaða í síðustu mælingu sem gaf tóninn fyrir núverandi verðbólgutölur. Í tölum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun kemur fram að reiknuð húsaleiga hafi hækkaði um 2,4% frá fyrri mánuði.

„Það sem kemur kannski mest á óvart er hækkun flugfargjalda til útlanda. Það var viðbúið að sá liður myndi hækka nokkuð en það er alltaf óvissa með mælingu Hagstofunnar því fargjöldin eru stöðugt að breytast. Þetta er mjög sveiflukenndur liður sem erfitt er að spá fyrir um,“ segir Konráð. Verð á flugfargjöldum til útlanda hækkaði um 22,9% á milli mars og apríl.

Konráð bendir á að þrátt fyrir að verðhækkanir á húsnæðismarkaði og flugfargjöldum hafi mikil áhrif á verðbólguna þá sé hún nú á breiðum grunni. Allar vísitölur sem mæli kjarnaverðbólgu, sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka, séu komnar yfir 4% efri vikmörk verðbólgumarkmiðsins.

Þó mætti greina jákvæða þróun í nokkrum vöruflokkum, til dæmis varahlutum í ökutækjum, raftækjum og húsgögnum og heimilisbúnaði, sem búast mætti við að yrðu fyrir áhrifum af hrávöruverðshækkunum og stríðinu í Úkraínu. Slíkir liðir hafi ekki ýtt verðbólgunni upp og jafnvel verið undir væntingum.

Spurður um áhrif innfluttrar verðbólgu segir Konráð að Íslendingar njóti nú góðs af því að krónan sé sterkari en fyrir ári síðan. „Við vorum að vissu leyti búin að taka þessar erlendu verðhækkanir út á síðasta ári í gegnum veikari krónu en verðbólgan í influttum vörum er þó 4,8% og hefur farið vaxandi.“

Seðlabankinn verði að senda skýr skilaboð

Næsta vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans verður kynnt næsta miðvikudag. Þrátt fyrir talsverða óvissu í heimshagkerfinu, m.a. vegna stríðsins í Úkraínu og eftirkasta heimsfaraldursins, telur Konráð óumflýjanlegt að Seðlabankinn muni bregðast við vaxandi verðbólgu.

„Þegar þú ert með verðbólgu og verðbólguvæntingar svona langt yfir markmiði á sama tíma og þú ert með lægstu raunvexti sem að Seðlabankinn hefur nokkurn tímann boðið okkur upp á þá held ég að þau verði bara að stíga nokkuð myndarlegt skref til hækkunar núna,“ segir Konráð.

„Bankinn verður að senda skýr og trúverðug skilaboð um að honum sé alvara með að ná 2,5% verðbólgumarkmiði.“