„Þeim er vorkunn. Þeir höfðu skamman tíma og ekki tólin til að gera þetta,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri um skýrslu ráðgjafafyrirtækisins Analytica sem fylgdi með skuldatillögum ríkisstjórnarflokkanna sem kynntar voru fyrir rúmum hálfum mánuði. Fram kemur í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans í tengslum við vaxtaákvörðun hennar að áhrifin af skuldatillögunum sem fela í sér niðurfellingu á hluta af verðtryggðum íbúðalánum  verða líklega meiri og leiða til veikara gengis og meiri verðbólgu en gert er ráð fyrir í skýrslunni.

Már sagði á vaxtaákvörðunarfundi í Seðlabankanum bankann ekki búinn að ljúka endanlegu mati á aðgerðum ríkisstjórnarinnar en taldi líkur á að það muni birtast í Peningamálum á næsta ári. Hann sagði þetta margar og flóknar leiðir sem geti haft áhrif á hagkerfið. Hann bjóst þó við að þegar frumvarp um skuldatillögurnar verður lagt fyrir Alþingi þá muni verða leitað eftir umsögn bankans.

Um skuldatillögurnar sagði Már:

„En það eru horfur á því að ráðstöfunarfé heimilanna muni aukast umtalsvert og það mun hafa áhrif á eftirspurn og innflutning. Þetta er ekki holskefla sem við munum ekki ráða við og það ætti ekki að valda kollsteypu enda dreift yfir langan tíma,“ sagði hann og mælti með þeim girðingum sem setja á í tengslum við væntar skuldaniðurfellingar svo skuldsetning heimilanna aukist ekki á ný.