Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur bankans, voru harðorðir varðandi kröfugerð verkalýðsfélaganna og þá stöðu sem komin er upp á vinnumarkaði í dag. Á fundi með blaðamönnum og greiningaraðilum vegna vaxtaákvörðunar bankans sagði Már að á fundi peningastefnunefndar hefðu komið fram miklar áhyggjur af stöðunni.

Svo virtist sem ekki væri nægilegur skilningur meðal almennings á stöðunni, sem væri allt önnur en var á níunda áratug síðustu aldar. Sagði hann að verðbólgu- og gengisáhrif mikilla launahækkana myndu ekki koma eins hratt fram, heldur myndu áhrifin á atvinnustig verða hraðari og meiri. Það myndi þýða að sumir launþegar myndu njóta raunverulegra launahækkana, en aðrir myndu missa vinnuna.

Þórarinn tók í sama streng og sagði að þeir sem verst myndu koma út, ef samið verður um verulegar launahækkanir, væru þeir sem nú hafa minnstu menntunina og lægstu launin.

Már sagði einnig að einhver fyrirtæki myndu ekki hafa burði til að standa undir verulegum launahækkunum og tók fyrirtæki í ferðaþjónustu sem dæmi. Þar væri arðsemi lítil og að mörg fyrirtæki myndu því standa frammi fyrir vali á milli þess að verðleggja sig út af markaðnum með verðhækkunum eða hreinlega hætta starfsemi.