Seðlabanki Íslands mun ekki tjá sig um tillögur ríkisstjórnarinnar um skuldaniðurfellingu fyrr en í fyrsta lagi á næsta stýrivaxtaákvörðunardegi. Þessar upplýsingar fengust frá Stefáni Jóhanni Stefánssyni, ritstjóra Seðlabankans, þegar Viðskiptablaðið óskaði eftir viðbrögðum frá bankanum. Stýrivaxtaákvörðunardagur er í næstu viku.

Þegar tillögurnar voru kynntar á laugardaginn kom fram að ráðgjafafyrirtækið Analytica hefði unnið mat á efnahagslegum áhrifum tillagnanna. Niðurstöður fyrirtækisins eru að verðbólguáhrif verði óveruleg.

Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, sagðist í samtali við Morgunblaðið í dag telja að aðgerðirnar geti ýtt undir þenslu árin 2016 og 2017, þótt slaki verði í hagkerfinu þegar þær koma til framkvæmda á næsta ári. Regína Bjarnadóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, segir það koma á óvart að gert skuli ráð fyrir að verðbólga aukist aðeins um 0,1% á næsta ári vegna aðgerðanna.