Seðlabanki Íslands vill ekki upplýsa um ástæður viðskipta á millibankamarkaði með gjaldeyri í dag að öðru leyti en að bankinn hafi þá stefnu að eiga viðskipti á gjaldeyrismarkaði þegar þörf krefur. Það sé gert í því skyni að draga úr gengissveiflum. Í svari bankans við fyrirspurn Viðskiptablaðsins er vísað til þess að upplýsingar um viðskipti Seðlabankans á millibankamarkaði séu birtar með tveggja daga töf.

Seðlabankinn hefur í dag selt evrur fyrir krónur á millibankamarkaði í nokkrum skrefum, eins og Viðskiptablaðið greindi fyrst fjölmiðla frá í morgun. Samkvæmt upplýsingum blaðsins hefur upphæðin hækkað frá fyrstu viðskiptum bankans í morgun og nemur nú yfir 9 milljónum evra.

Í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag er fjallað um veikingu krónunnar í janúar. Í gær kostaði evran um 174 krónur og hafði krónan ekki verið veikari síðan í mars árið 2010. Í kjölfar aðgerða Seðlabankans í morgun hefur krónan styrkst og gengisveiking í janúar gengið til baka. Styrking gagnvart gengisvísitölu nemur um 1,5% það sem af er degi.

Síðast greip Seðlabankinn inn í á gjaldeyrismarkaði á gamlársdag. Þá keypti bankinn krónur fyrir um sex milljónir evra. Veiking dagana áður var rakin til tímabundinna þátta er varða áramótastöðu fjármálafyrirtækja.