Vera má að efnahagsbatinn á heimsvísu sé ofmetinn. Ekki er útilokað að bakslag komi í þeim evruríkjum sem eru í hvað mestu skuldavanda og skuldakreppan það smitað út frá sér til fleiri evruríkja. Af þeim sökum gæti heimsbúskapurinn dregist inn í nýtt samdráttarskeið sem gæti varað í nokkurn tíma. .

Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabankans sem kom út í dag.

Í ritinu er bent á að þótt efnahagshorfur hafi batnað upp á síðkastið og óvissa minnkað þá sýni nýleg hækkun á skuldatryggingarálagi Spánar að vandinn er hvergi nærri að baki.

Í Peningamálum segir að skelli annað samdráttarskeið yfir þá sé líklegt að áhrifin á íslenskan þjóðarbúsakp verði meiri en grunnspá Seðlabankans geri ráð fyrir.

„Útflutningshorfur gætu veikst, enda evrusvæðið mikilvægasti útflutningsmarkaður Íslands. Viðskiptakjör gætu því rýrnað enn frekar, sérstaklega ef sjávarafurðaverð gæfi verulega eftir. Áform um innlenda fjárfestingu sem er háð alþjóðlegri fjármögnun gætu einnig komist í uppnám versni alþjóðlegar efnahagshorfur, sem gæti tafið innlenda uppbyggingu og dregið úr útflutningsgetu þjóðarbúsins til lengri tíma. Áframhaldandi efnahagsbati hér á landi gæti því komist í uppnám,“ segir í Peningamálum.

Heimilin verða að auka sparnað og greiða skuldir

Þá er bent á í Peningamálum að ætla megi að aukin bjartsýni og minni óvissa um efnahagshorfur og eigin efnahag, m.a. í kjölfar dómsúrskurða um ólögmæti gengistryggðra lána, hafi dregið úr þörf fyrir varúðarsparnað.

Ekki sé útilokað að of mikillar bjartsýni hafi gætt um vöxt einkaneyslu Verði t.d. bakslag í alþjóðlegum efnahagsmálum gætu heimilin talið skynsamlegt að auka varúðarsparnað á ný. Þau gætu einnig talið þörf á að taka lengri tíma í að lagfæraefnahagsreikninga sína og greiða niður skuldir, enda skuldsetning íslenskra heimila enn mikil í alþjóðlegu samhengi.