Vegna óvissu um framhald slitameðferðar þrotabúa föllnu bankanna bendir margt til þess að slitastjórnir þeirra hafi tímabundiðhægt á því ferli að umbreyta eignum í í laust fé, sér í lagi innlendum eignum, að mati Seðlabankans. Bankinn segir að verði viðvarandi óvissa um framhald slitameðferðarinnar er hætta á að kröfur komist í eigu fjárfesta sem sérhæfa sig í endurheimtum eigna sem lagalegur ágreiningur er um.

Í riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleiki , segir um búin að bókfært virði eigna þeirra, þ.e. Glitnis, Kaupþings og gamla Landsbankans, hafi í lok júní í sumar verið áætlað 2.639 milljarðar króna. Það er 111 milljarða lækkun frá áramótum. Á tímabilinu skilaði 6,7% gengisstyrking íslensku krónunnar sér í 150 milljarða króna tapi búanna. Á móti var virðisaukning vegna sölu gamla Landsbankans á um 5% hlut í Glitni og uppfærsla Glitnis á verðmæti hlutar búsins í Íslandsbanka.

Af heildareignum gömlu bankanna er virði innlendra eigna talið vera um 960 milljarðar króna. Þar af eru um 40 milljarðar króna innlenda eignir tryggðar með erlendum veðum. Um 110 milljarðar króna eru laust fé í íslenskum krónum og um 80 milljarðar króna laust fé í erlendum gjaldmiðlum.

Erlendar eignir eru á sama tíma taldar vera um 1.680 milljarðar króna. Þar af eru um 1.060 milljarðar króna laust fé.