Ríflega sex prósenta hlutur sem að Seðlabanki Íslands seldi í Kaupþingi til sjóða í nóvember 2016 fyrir samtals 19 milljarða hafði tveimur mánuðum seinna hækkað í virði um 4 til 5 milljarða. Sjóðirnir sem keyptu bréfin voru sömu sjóðir og nú eru komnir í eigendahóp Arion banka, að því er kemur fram í umfjöllun Markaðarins, fylgirits Fréttablaðsins um málið.

Í kjölfar þess að Seðlabankinn hafði gengið frá sölu á öllum hlut sínum í Kaupþingi var tilkynnt í lok janúarmánaðar að samkomulag hafði náðst í stóru ágreiningsmáli við Deutsche Bank. Þýski bankinn féllst að mestu á kröfur kaupþings og greiddi fyrir um 400 milljónir evra, eða því sem jafngildir um 50 milljörðum króna, í reiðufé til bankans. Eftir það rauk gengi krafna á hendur Kaupþingi upp um liðlega 30 prósent. Sami hlutur og Seðlabankinn seldi skömmu áður hækkaði um leið í virði um milljarða króna.

Seðlabanki Íslands segir í skriflegu svari við fyrirspurn Markaðarins að bankinn hafi ekki haft fyrrgreindar upplýsingar á þeim tíma sem að Kaupþing hefði átt í viðræðum við fulltrúa Deutsche Bank um mögulegt samkomulag.