*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 18. september 2015 14:29

Seðlabankinn veitti undanþágur vegna Icesave

Sátt hefur náðst um lokauppgjör krafna sem stafa frá innstæðum á Icesave-reikningum Landsbanka Íslands.

Ritstjórn

Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) hefur náð samkomulagi við seðlabanka Hollands (DNB) og breska innstæðutryggingarsjóðinn (FSCS) sem felur í sér að sátt hefur náðst á milli opinberra aðila í þessum þremur löndum vegna Icesave-innlánsreikninga Landsbanka Íslands (LBI). Til þess að greiða fyrir samkomulaginu hefur Seðlabanki Íslands veitt þrjár undanþágur frá fjármagnshöftum. Þetta kemur fram í frétt á vef Seðlabankans.

DNB endurheimti útlagða fjármuni að fullu í ágúst 2014. Fullnaðargreiðslu til FSCS frá LBI er áætluð annaðhvort samhliða nauðasamningi LBI á grundvelli stöðugleikaskilyrða eða eftir greiðslu LBI á stöðugleikaskatti, í samræmi við áætlun stjórnvalda um afnám fjármagnshafta. Nú þegar hefur FSCS fengið 84,2% af kröfu sinni greidd frá þrotabúi LBI.

Tvær af undanþágum Seðlabankans lutu að krónuinnstæðum að fjárhæð 9,5 miljjarðar króna sem tengdust greiðslum til DNB og FSCS úr LBI. Ein undanþága var til TIF sem laut að greiðslu 20 milljarðar króna til DNB og FSCS.

Til að fullnusta uppgjörið átti Seðlabankinn þátt í gjaldeyrisviðskiptum sem fólu í sér að 22,1 milljarðar króna í íslenskum krónum var skipt í erlendan gjaldeyri og hann greiddur til DNB og FSCS. Þá var gjaldeyrisinnstæða TIF hjá Seðlabankanum að fjárhæð 7,4 milljarðar króna greidd til sömu aðila. Samtals lækkaði gjaldeyrisforði Seðlabankans um 29,5 milljarða króna af þessum sökum.

Stikkorð: Icesave