*

miðvikudagur, 19. febrúar 2020
Erlent 11. júlí 2019 19:00

Seðlabankinn verið of aðhaldssamur

Seðlabankastjóri Bandaríkjanna telur rými til að lækka vexti vegna veikara sambands verðbólgu og atvinnuleysis.

Ritstjórn
Jerome Powell er seðlabankastjórinn í Bandaríkjunum.
epa

Jerome Powell seðlabankastjóri í Bandaríkjunum segir mögulegt fyrir bankann að lækka vexti vegna þess að sambandið milli verðbólgu og atvinnuleysis hafi rofnað. Segir hann samfylgnina milli efnahagsþátta hafa byrjað að veikjast fyrir tuttugu árum. „Það hefur orðið veikara og veikara og veikara,“ sagði Powell á öðrum degi á fundum með þingnefndum Bandaríkjaþings.

Lagði hann áherslu á að efnahagur Bandaríkjanna væri „á mjög góðum stað“, en bankinn þyrfti að geta notað tól sín til að halda því þar, svo hægt væri að vega upp á móti minnkandi framleiðni og bjartsýni í viðskiptalífinu vegna tolladeilna.

Ward McCarthy aðalfjármálahagfræðingur Jefferies LLC segir skilaboð Power vera skýr um að bankinn hyggist lækka vexti að því er fram kemur í Bloomberg.

Heldur sig vera að læra að hlutlausa stigið sé lægra

Sagði Powell öldungardeilarþingmönnunum á opnum fundi í þingnefndinni að svokallað hlutlaust vaxtastig sem myndi halda hagkerfinu í jafnvægi væri nú lægra en það var metið áður, sem þýddi að vaxtastefnan hafi verið of aðhaldssöm.

„Við erum að læra að vaxtastigið, það er hinir hlutlausu vextir, eru lægri en við héldum og ég held að við séum að læra það að hlutlausa atvinnuleysisstigið sé líka lægra en við héldum,“ sagði Powell. „Svo peningastefnan hefur ekki verið jafnörvandi fyrir hagkerfið og við héldum.“

Seðlabankinn lækkaði einmitt í júní mat sitt á stýrivöxtum til framtíðar í 2,5%, frá 2,8% í marsmánuði, og búast því fjárfestar við 0,25 prósentustiga lækkun stýrivaxta í lok júlí. Þó voru líkurnar á lækkuninni taldar eilítið minni eftir að í ljós kom fyrr í dag að verðbólgan mælist meiri en áður var búist við.